Bíddu....

Hvenær var þessi staða auglýst? Þarf það kannski ekki?
mbl.is Markús Örn skipaður forstöðumaður Þjóðmenningarhúss
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sérkennileg auglýsing

Undan farið hefur LÍN auglýst á síðum dagblaða svokallarðar "mínar síður".

Þar á að vera hægt að fara inn og fylgjast með námslánum sínum, sjá stöðun o.s.frv.

Unga fólkið í auglýsingunni er voða fallegt og afar kát og mjög glöð þegar þau spekúlera í síðunni sinni í tölvunni.

Mér þykir í raun afar vænt um LÍN - án þeirra hefðum við hjón aldrei getað farið út í nám. Við vorum bara svo vitlaus að vera ekki búin að kynnast og þess vegna erum við með sitthvora 2.5 miljónirnar í skuld. Það mjatlast.

En mér þykir ekki svona gaman að þessum lánum!


Ætli þeir hafi lent í þessu?

Fólk virðist lenda í ýmsum hlutum - Villi segist hafa lent í þessu í Reykjavík og hér um árið þá sagði Geir H. Haarde að Árni Johnsen hefði lent í þessu veseni sem hann kom sér í.

Svo hef ég heyrt um menn sem hafa lent í framhjáhaldi - hvernig virkar það?


mbl.is Réttindalaus ökumaður á níræðisaldri
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Æskuheimili mitt

Húsið sem ég ólst upp í - Hófgerði 26 -  er til sölu. Það hefur undirgengist talsverðar breytingar, búið að sameina stofu, borðstofu og eldhús og bæta geymslunni við (geymslan var nú einu sinni herbergið mitt). Enginn var bílskúrinn þegar við vorum þarna. Í þetta hús fluttu foreldrar mínir með mig eins árs og Palla fjögura ára. Hannes fæddist síðan tveim árum síðan. Við bjuggum þarna til 1976.

Þetta var hrikalega barnmargt hverfi og svaka gaman. Kársnesskóli steinsnar í burtu, Fiskbúiðin hans Bóbó (pabba Kristjáns Hreinssonar skálds) á horninu og svo Jóabúð þar sem allir versluðu. Svo kom sundlaugin og í þeirri litlu laug var allur bærinn á góðviðrisdögum. Kirkjuholtið var aðal leiksvæðið okkar.

http://www.habil.is/lix/adjalta?HabilView=110587&sysl&habil&HouseId=837211


Mér er heitt í hamsi!!!!!

Svona líður mér eftir að hafa lesið tvær fínar greinar í Morgunblaðinu. Önnur greinin er eftir Edmund Bellersen, sem ég veit ekki nein deili á, og hin eftir Hjálmtý Heiðdal kvikmyndagerðarmann. Báðar fjalla um ástandið í Palestínu.

Ég verð döpur og reið þegar ég hugsa til ástandsins og hvernig Ísraelsmenn fara með Palestínumenn. Þessi ríka þjóð sem er dyggilega studd af Bandaríkjamönnum býr yfir miklum herafla og á vopn eins og þeir þurfa. Þetta nota þeir síðan til að kúga og drepa Palestínumenn.

Það var líka ágætt sem Hjálmtýr bendir á í sinni grein að Palestínumenn höfðu ekkert um það að segja að Bretar úthlutuðu gyðingum landið sem þeir áttu. Af hverju var þeim ekki boðið skjól í Þýskalandi eða Póllandi? Nú eða í Bretandi sjálfu?

Og ég vil ekki heyra einhverja dellu eins og þá að það standi í Bibblíunni að gyðingar eigi Palestínu.

Ég hef reynt að leggja mitt lóð á vogarskálina með því að fara á fundi til að mótmæla ástandinu.

Hvað getur maður raunverulega gert? Ég dái Svein Rúnar Hauksson og aðra þá sem fara og reyna að hjálpa Palestínu mönnum.


Íslenskan

Ég kíkti á heimanámið hjá þeirri yngir. Þetta er svona verkefnabók í íslensku sem heitir Skrudda.

Eitt af verkefnunum sem hún leysti var að finna samheiti ákveðinna orða.

Hún átti að finna samheiti yfir "hýr". Samkynhneigður skrifaði hún - ég var ánægð með þaðSmile

Framan á Fréttablaðinu stendur "Vilhjálmur er að meta stöðu sína"

Á þetta ekki að vera "Vilhjálmur metur stöðu sína"?

Ég sakna pistla Njarðar P. Njarðvík úr Fréttablaðinu. Þeir voru oft mjög skemmtilegir.

 


Helgin

Hún byrjaði vel með skemmtilegum Gettu betur þætti og mexíkóskum kjúkling í kvöldmat.

Laugardagurinn var svona stúss dagur. Kóræfing stóð til klukkan 13:30 og þá brugðum við mæðgur okkur í Hagkaup, BT, Sólheimasafnið og Sorpu. Síðan rak ég inn nefið hjá mömmu sem var að lakka hjá á sér neglurnar fyrir matarboð hjá Hannesi bróður mínum.

Saltkjötið og baunirnar hjá máginum voru voru sérlega, sérlega gómsætar.

Mikið naut ég þess í morgun um 10:00 að sitja ein í ró og næði, borða morgunmat og lesa blöðin.

Eftir Silfur Egils þá tók ég mér tusku í hönd og hef svona verið að káfa í kring um mig.

Ari er hjá okkur í smá passi meðan mamman er í leikhúsi.

Kvöldið bíður - Glæpurinn verður sífellt meir og meir spennand þó svo að ég hafi vitað strax í 2. þætti hver morðinginn er. Ég hef staðst freistinguna að fara á danskar vefsíður og fá staðfestingu á grun mínum. Svo veit Siggi Helga samstarfsmaður minn hvernig þessu líkur en ég læt ekki freistast.

Annars er ég frekar fyrir það að falla fyrir freistingum en standast þær. 


Myndir

Í eymd og aumingja skap mínum í vikunni gat ég ekki lesið og rúllaði á milli rúmsins og sjónvarpssófans.

Ég horfði á nokkrar góðar myndir: Forrest Gump get ég horft á aftur og aftur. Ég horfði líka á Babel í annað sinn. Mikið lifandi, ósköp og skelfing er ég hrifin af þessum leikstjóra Alejandro González Iñárritu. Ég varð alveg rosalega hrifin af Amores Perros og svo fylgid 21 grams í kjölfarið.

Ég á þessar þrjár myndi ár DVD en get bara horft á Amores Perros í tölvunni því ég pantaði hana að utan og ekkert af tækjum heimilisins vill viðurkenna hana.

Ég elska svona myndir sem hafa paralell söguþráð.

Svo horfði ég á Sicko Michaels Moore og hafði gaman af. Þetta er náttúrulega pjúra áróðursmynd enda gefur hann sig út fyrir að gera slíkar myndir en ekki heimilda myndir.

Ég gat nú ekki annað en hlegið af því sem tekið er á Kúbu. Hann gerir í raun grín að Bandaríkjunum og Kúpu í þeim skets því auðvitað er ekki mörg sjúkrahús á Kúbu vel búin. Enda hvílir viðskiptabannið ógurlega yfir þeim.

En varðandi vanefndir tryggingafélga gagnvart skjólstæðingum sínum þá trúi ég þeim hluta fullkomlega.

Ég þekki mann - virtan háskólaprófessor - sem býr í Minnesota. Hann er tryggður í bak og fyrir og með allt sitt á hreinu enda er það eitt af því sem kemur fram í samningum hans.

Þegar hann svo lenti í minniháttar hjartaáfalli fyrir nokkrum misserum þá var "allt" borgað - nema sumt. Hann stóð uppi með nokkur þúsund DOLLARA  reikning frá sjúkrahúsum og læknum eftir veikindin.

Hvernig ætli það sé að vera læknir hjá tryggingafélagi og hafa það sem starf að draga þarfir skjólstæðinga í efa?


Helgin handan við hornið

Þessi verður í rólegri kanntinum. Þarf þó að þvo þvott og þrífa - ef ég nenni eins og Helgi Björnsson söng á sínum tíma.

Ég átti von á tveim næturgestum í kvöld - Rannveigu 13 ár og Ara mínum sem verður þrigggja ára í mars. En bæði búin að afboða - veðrið setur strik í reikninginn. Ég var búin að sjá fyrir mér stuðkvöld með pizzum, unglingsstelpum og litla kút.

En við ætlum bara að hafa það notalegt saman og ég hlakka til að sjá fyrsta þátt af Gettu betur.

Á morgun ætlar síðan mágurinn í kjallaranum að elda saltkjöt og baunir og þá fáum við tvo fullvaxna karlmenn í mat. Þetta eru frændi strákanna sem heitir Gunnlaugur Helgi Gunnlaugsson (nema hvað) og býr nálægt Barcelona og svo hinn víðförli Lord Baldur Hjaltason.

Mikið hlakka ég til að borða sprengidagsmáltíðina......með stákunum og stelpunum mínum


Klovn

Ef þú hefur ekki séð þessa þætti - þá ertu ekki orðin of sein/seinn!

Enn eru 9 þættir eftir og þetta er alveg frábærlega skemmtilegt danskt efni.

Sýnt í sjónvarpinu klukkan 09:25 á fimmtudagskvöldum


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband