Færsluflokkur: Bloggar

Af vöktum!!!

Þó undur og stórmerki gerast um þessa helgi að Gulli minn fer út af vöktum hjá RÚV og vinnur næstu tvo mánuði frá 9 - 5. Já og örugglega oft lengur og oft um helgar - en ekki á vöktum. Í þau 18 ár sem við höfum verið saman hefur hann unnið vaktavinnu. Þetta er stundum hundleiðinlegt en hefur líka sína kosti. Þegar stelpurnar voru litlar og ég heim með þær skipti engu hvað dagarnir hétu því við höfðum okkar helgar þegar okkur hentaði. Svo þegar stelpurnar fóru í skóla var pabbinn oft heima á virkum dögum þegar þær komu heim. Það var notalegt. Nú vinn ég gjarnan lengur þegar hann á frí á virkum dögum en fer fyrr og er fyrr búin á þeim dögum þegar hann er í vinnu. En það verður óneitanlega gaman að fá hann heim upp úr fimm og að hann sé meira heima um helgar. Hann fer í frí frá íþróttadeildinni og fer í að undirbúa kosningasjónvarpið og verður þar pródúsent þannig að það má búast við miklu fjöri þegar kosningar nálgast. Svo verð ég að vinna við júróvisjón og þar eru keppnisdagar 10. og 12. maí.


Af úrgangangsefnum

Við hjón sátum í rólegheitum og bulluðum einn daginn - dáldið sem við höfum gaman af og hlæjum af vitleysunni hjá í okkur. Eitthvað fannst eldri dótturinni við vera komin út á hálan ís og sagði með þjósti "að hún þyldi ekki svona úrgangsefnis brandara"

Þau eru hrikalega viðkvæm á þessum aldri og móðgast yfir hinu minnsta. Einu sinni bað þessi sama dóttir okkur að segja "barnið vex en nærfötin ekki" í stað brókar. Og hér verður að tala um salerni en ekki klósett. Vonandi rjátlast þetta af henni því þetta er eitthvað svo stíft og meðvitað líf...

 


Góðu börnin gera það

Þegar á lá á meðgöngudeild lansans fyrir nær 14 árum lá við hlið mér kona sem gekk með sitt fjórða barn. Á meðal barna hennar var stelpa sem var með Downs syndrom. Við ræddum þessi mál heilmikið og meðal annars kom hún með þessa líkingu:

Þú ert búin að kaupa þér far til London en lendir svo allt í einu í Amsterdam. Þú varst bún að lesa þér mikið til um London og vissir nákvæmlega hvernig ferið yrði. Þegar til Amsterdam er komið þarft þú allt í einu að breyta öllum plönum og læra og stúdera allt um nýju borgina. Ferðalagið um hana reynist síðan vera mjög spennandi og ekki er ferðin síðri en ferðin sem þú hafðir planað um London.

Mér verður oft hugsað til þessarar sögu. Sérstaklega þegar ég heyri og les viðtöl við foreldra barna/unglinga sem leiðst hafa út í eiturlyf og afbrot. Það er nefnilega svo margt sem getur gerst á einni ævi og mikið held ég að það sé hræðilega mikið áfall og sorg að sjá á eftir barni sínu út í líf neyslu og afbrota. 


Heimabíó

Í þessum slappleika mínum hef ég horft á tvær myndir. Í gær horfðum við mæðgur á Titanic, ekki í fyrsta skipti og væntanlega ekki í síðasta. Ég hef rosalega gaman af myndinni þeirri. Af allt öðrum toga var hin myndin því Gulli keypti The Departed í gær. Hún er rosalega góð og fer í hillu með þeim myndum sem ég á eftir að horfa aftur á. Þetta eru frábærir leikarar og Jack Nicolson sýnir enn og sannar að hann er fyrsta flokks. As good as it gets og About Schmitd eru ótrúlegar myndir líka. Hvað ætli kappinn sé gamall?


Lasin og leið

Ég hef verið heima síðan á föstudag með eitthvað sem ég hef ekki getað hönd á fest - en verið það slöpp að ég hef ekki verið til neins. Ég var hjá lækni áðan og þá fann hann skýringuna. Ég er alltaf svo fegin þegar það kemur í ljós að veikindi eiga sér skýringu. Þetta er ekkert alvarlegt en þýðir að ég þarf að vera heima fram yfir helgi. Það verður bara að taka því......

Ferming 2007

Eldri dóttir okkar hjóna fermist 1. apríl og mikið rosalega er gaman að undirbúa fermingu! Við ætlum að bjóða gestum heim til okkar en panta mat. Þetta verður lítil samkoma því ef að allir koma eru þetta um 40 manns. Ég hlakka svo til.

Það er búið að kaupa kjólinn á fermingarbarnið, búið að panta mat og myndatöku, búið að kaupa spariföt á yngri dótturina, búið að kaupa borðskraut, Oddný frænka ætlar að greiða stúlkunni og bara eftir að ryksuga og trutta til.

Þetta er skemmtilegt!


Þar kom að því!

Eftirfarandi barst mér tölvupósti:

Þann 21. febrúar síðastliðinn breytti Icelandair framsetningu fargjalda á heimasíðu sinni. Í dag er endanlegt verð birt strax í fyrsta skrefi bókunarferlisins, þ.e. flugverð með sköttum og gjöldum(forfallagjald er eftir sem áður valkvætt og ekki innifalið í uppgefnu verði). Fyrir þessa breytingu var einungis flugverðið birt í fyrsta skrefinu og skattar og gjöld bættust við seinna í ferlinu. Með þessum breytingum vonast Icelandair til að bókunarferlið verði skýrara fyrir viðskiptavini sína.

Já rétt skal vera rétt!


Hvítur reykur/svartur reykur

Þær voru æsispennandi klukkustundirnar áður en Eiríkur Hauksson gaf út yfirlýsingu um að hann tæki þátt í norrænu evróvisjón þáttunum. Þetta minnti helst á þegar beðið er eftir því að nýr páfi sé kjörin.

Ég er afskaplega fegin því að Eiríkur ætlar að vera í þáttunum. Hann hefur staðið sig vel í þeim á undanförunum árum og svo fullyrti ég í útvarpsviðtali á sunnudag að hann ætlaði að vera með í þeim. Ég hafði það eftir áræðanlegustu heimildum að pródúsentar þáttanna vildu endilega hafa hann með - þannig að ég laug engu þegar ég fullyrti um þátttöku hans.

Ég er líka rosalega ánægð með okkar framlag í ár. Eiríkur er frábær söngvari og lagið gott. Ég hlakka til 10. og 12. maí.


Guðni og enskan

"Skyrið er að meika það" sagði landbúnaðarráðherra í útvarpinu rétt áðan. Honum fer fram í ensku því þegar Anna prinsessa kom hingað á sínum tíma þurfti túlk fyrir Guðna.

Dagurinn í dag

Upp er runninn öskudagur

ákaflega skýr og fagur.

Einn með poka ekki ragur

úti vappar heims um ból.

Góðan dag og gleðileg jól

Þessa vísu lærði ég af mínum gamla vin og læriföður Tage Ammendrup.

Annars leiðist mér þessi dagur. Mér hefur í gegnum tíðinu fundist ömurlegt að sjá krakkana eftirlitslaus í Kringlunni syngjandi Bjarnastaðar beljurnar. Það er eitthvað hömluleysi í þessu.

Í henni Ameríku var gaman að fara út á Halloween. Þar fóru krakkar út í u.þ.b. klukkustund - sungu fyrir nágranna sína í næstu götum og fengu nammi að launum. Foreldrar barnanna með.  Þeir sem ekki vildu fá krakka í heimsókn höfðu slökkt á útidyraljósinu. Mín yngri er einhverstaðar núna með heila íþrótta tösku og safnar sleikjóum í tonnatali.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband