Færsluflokkur: Bloggar

Ástralskar auglýsingar

http://b2.is/?sida=tengill&id=242241

Athugið þessa og fleiri svipaðar á sama stað.....


Þar fór vinnuherbergið!

Niðurlæingar tímabili Vogaskóla er u.þ.b. að ljúka því nú er verið að flytja lausu stofurnar af skólalóðinni.

Það eru a.m.k. 12 ár síðan fyrstu stofurnar komu á lóðina og ef ég hef talið rétt eru þær núna níu talsins. En nú er búið að byggja við skólann og verður nýja byggingin tekin í notkun í haust.

Undanfarna daga hefur verið losað um húsin og í gærkvöld fór vinnstofa kennara og í kvöld fer kennarstofan væntanlega á flug.

Ég hef í gegnum árin kallað þetta "lausar stofur" af virðingu  við skólann.

Núna finnst mér allt í lagi að kalla þetta skúra.....


Í leysingum

Já ég er í leysingum - bloggaði þvílíkt í gær og verð vonandi í stuði líka í dag. Ég er löngu vökuð og búin að hlusta á heila messu. Náði restinni af þætti Þórdísar Gísladóttur. Treysti á að hann verði endurtekinn. Eða hlusta á netinu. Ég er að spekúlera að taka rækilega til í eldhúsinu hjá mér í dag. Ég nenni ekki að gera það ein og treysti á stóra manninn minn. En ætli að letin nái ekki yfirhöndinni. Enda á maður að vera latur á sunnudögum.

Tage og rakvélin

Maðurinn minn keypti sér nýja rakvél um daginn sem ekki er í frásögur færandi. Jú það er nefnilega í frásögur færandi því hinn dásamlegi Tage Ammendrup kemur þar við sögu.

Þeir höfðu setið niðri á ampex, Gulli og Tage. Allir sjónvarpsstarfsmenn núverandi og fyrverandi vita hvar ampexinn var á Laugaveginum.

Eitthvað eru þeir að spjalla um rakstur og Tage segir Gulla frá þessari líka fínu rakvél sem hann hafi verið að kaupa og hvetur Gulla til að kaupa eina slíka. Og auðvitað fór Gulli að ráðum sér eldri og vitrari manns.

Það eru meira en tólf ár síðan þetta var því Tage dó í maí 1995. Og nú fást ekki lengur blöð í þessa gerð af rakvélum. Þannig að ný var keypt og hugsað hlýtti til Tage um leið.


Göngum saman

Ég vil hvetja sem flesta til að taka þátt í göngunni sem verður á þriðjudag. Gangan er farin til að minna fólk á nauðsyn þess að fara varlega í umferðinni og keyra ekki undir áhrifum áfengis eða lyfja. Ganga á á milli Landspítala og Borgarspítala. Frábært framtak hjá hjúkrunarfræðingunum þrem.

Það er nú þannig að þó banaslysin séu talsvert færri í ár en undanfarin ár þá hefur alvarlegum slösuðum fjölgað gífurlega það sem af er árinu.

Svo er það þessi hræðilegi ofsaakstur- hvað er til ráða?


Mikið er þetta fallegur dagur!

Sólin skín og allir hraustir.

Við grilluðum lanmbalæri í gær og buðum mömmu og mági í mat. Ég var svo harðákveðin í að hafa fordrykkinn úti að við sátum með ginið í flíspeysum og með teppi um okkur. Það er bara svo yndislegt að vera úti og ekkert mál að klæða sig vel.

 


Senn fer vorið á vængjum yfir flóann...

Mér þótti afar skemmtilegt að Raggi Bjarna skyldi vera útnefndur borgarlistamaður í ár. Sérstaklega á 17. júní því ef mér verður einhverntímann hugsað til Ragga þá er það 17. júní ár hvert.

Ástæðan er hún amma mín heitin Jensína Jensdóttir. Amma var mjög hrifin af Ragga - fannst hann syngja svo vel og vera svo snyrtilegur.

17. júní ár eitt fór hún amma mín með okkur mömmu á Rútstún í Kópavogi til að sjá og heyra Ragga Bjarna. Við bjuggum alveg við túnið en það var samt talsvert ferðalag fyrir ömmu því hún hafði lærbrotnað - svei mér þá ef hún var ekki tvíbrotin og hafði ekki gróið vel.

En út á Rútstún fór hún með okkur mömmu sitt til hvorrar handar.

Þessvegna á Raggi Bjarna sérstakan stað hjá mér 17. júní


Pirrandi bók

Ég er að lesa Heimsins heimskast pabbi og hún pirrar mig alveg rosalegaPinch Ég þoli alveg að lesa um píku, tussu, klof og pung en þessi gengdarlausa fyrirlitning á allt og öllu fer í mínar fínustu taugar. Ég ætla nú samt að klára hana.

Fyrir löngu las ég 101 Reykjavík og hún fór líka svona í taugarnar á mér. En myndin er mjög skemmtileg.

Nú þarf ég að fara upp í Sólheimasafn og ná mér í bækur fyrir letilífið á ströndinni. Ég ætla að lesa og lesa og lesa þessa viku. Ég ætla ekki að kaupa nokkurn skapaðan hlut annað en mat og drykk. 

Stelpurnr eiga dálítinn aur  í handraðanum sem þær hafa safnað sér með því að sjá um dósir og plast hér á heimilinu. Þær geta notað hann til að kaupa sér eyrnalokka, hálsmen,varaliti og fleira sem stúlkur á þessum aldri þurfa að eiga.


Ekki hissa

Einhvernveginn er ég ekki hissa á yfrtöku Baltasars Kormáks á Slóð fiðrildanna. Þessi leikur er ekki nýr - var leikinn fyrir 4 - 5 árum.

Góður dagur

Þennan dag fyrir 16 árum sveif ég bláklædd við arm föður míns inn Dómkirkjugólfið til móts við mannsefnið mitt. Hálftíma síðan var ég gift kona og hef verið síðan - sama manninum.

21. júní 1991 var bjartur og fallegur. Eftir veislu á efri hæð Oddfello hússins héldum við hjónin ásamt okkar nánustu út í Viðey og borðum þar. Þegar við komum í bátinn í Sundahöfn spurði Gunnhildur Vala bróðurdóttir mín þá tæpra fjögurra ára "hver ætlar að hræra" meinti "að róa". Dagurinn endaði síðan með þessu sama fólki á heimili okkar að Öldugötu 30a þar sem drukkið var kampavín og gjafir opnaðar.

Fórum að sumarhúsinu daginn eftir og vorum þar næstu viku.

Dæturnar komu í heiminn tveim og fjórum árum síðan og við erum dæmigerð úthverfis fjölsylda með kött.

Lífið hefur svo sannarlega verið mér gott


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband