28.12.2008 | 14:03
Dagarnir í lífi mínu
Jæja - þetta er nú búið að vera skratti gott verð ég að segja
Aðfangadagskvöld var rólegt og gott og sömuleiðis jóladagur. Boðið á jóladag gekk vel og mikið fjör hjá okkur. Á annan í jólum gerði ég eiginlega ekki nokkurn skapaðan hlut nema að við tókum til eftir bjóðið. Og elduðum pasta. Ég hef lesið og lesið og lesið. Og eina mest spennandi bók sem ég hef opnað - Karlar sem hata konur. Yfir 500 blaðsíður og ég les mig rauðeygða fram á nætur og langar mest að gera ekkert annað en lesa og lesa. En það er víst ekki hægt.
Í gær dreif ég mig í WC og gekk rösklega í klukkutíma og það var mikið, mikið gott. Þar var fjölmenni en samt ekki bið eftir bretti. Það er ákaflega snyrtilegt og gott í WC en í gær fann ég í fyrsta sinn mannafílu þegar ég kom í salinn!!!!
Í dag grenjaði ég síðan yfir pottum og pönnum í hádeginu þegar Cecilia Bartoli söng Caromio ben (skrifað einhvern veginn svona held ég). Ég fór allt í einu að hugsa um hann elsku pabba minn. Og þegar maður er eitthvað dálítið lítill í sér þá er nú varnirnar ekki miklar.
Ég er búin að búa til skyrtertu og heitt brauð í ofni sem ég ætla að taka með til mömmu en þar ætlum við systikinin og fjölskyldur að hittast í kaffiboði á eftir. Stelpurnar eru að gera sig klárar en ástin mín er að senda út tvo handbolta leiki. Ég verð góð við hann í kvöld.
Á morgun og þriðjudag vinn ég en er síðan komin í langt frí aftur og fer ekki til vinnu fyrr en 5. janúar. Og þá hefst nýr kapítuli í lífinu ekki satt!.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.