Færsluflokkur: Bloggar

Bull og vitleysa

Ég og hún móðir mín höfum hlegið yfir því tvo sunnudags eftirmiðdaga að hún hefur  látið blekkjast af Tvíhöfða. Þá hefur hún kveikt á rás 2 milli klukkan 14:00 og 15:00 og hlustað á einhvern furðufuglinn ausa úr skálum visku sinnar. Þar hefur að sjálfsögðu Jón Gnarr verið á ferð í hlutverki kverúlants. En svo fundum við skýringuna - hún hlustar talsvert á Útvarp Sögu þar sem hver rugludallurinn á eftir öðrum hringir inn.

Þeir félagarnir Jóhann Hauksson og Sigurður G. Tómasson eru afbragðs útvarpsmenn.

En þegar innhringar byrja er mér allri lokið og hreinlega get ekki hlustað. Er ekki allt í lagi heima hjá fólki! Er einhver að hlusta þarna úti?


Hamrahlíðarkórinn minn dásamlegi

Ég heyrði í fréttum sjónvarps um daginn þegar Kór Menntaskólans við Hamrahlíð söng fyrir vestfirðinga á Sólrisuhátíð.

Ég fór með kórnum á þessa sömu hátíð 1976. Rosalega gaman og ég hitti gamlan kennara úr grunnskóla þarna - kennara sem við stelpurnar allar vorum rosalega skotnar í. Kyssti hann undir vegg...úbb úbb úbb....

Mér finnst ótrúlegt til þess að hugsa að ég hafi byrjað í kórnum fyrir liðlega þrjátíu árum. Þetta var hreint ævintýralega skemmtilegur tími. Frábær félagsskapur og þarna opnaðist fyrir manni heill heimur kórtónlistar bæði nýrrar og gamallar. Og Þorgerður mín var einstök - ströng en góður félagi. Mér finnst skondið til þess að hugsa að hún var á 33. aldursári þegar ég byrja. Okkur fannst hún nú talsvert mikið eldri en við hin.....


Ólíkindaleg líkindi

Horfði á hina frábæru Betty í gær - og það er alltaf jafn skrýtið að sjá Frey Eyjólfsson þarna með henni. Þeir eru ótrúlega líkir hann og aðalleikarinn. Svo þegar Selma Hayek var komin þarna með honum þá var þetta eins og að horfa á Frey og kærustuna hans, Hólmfríði, saman....

Nýja rúmið

Nú nálgast ferming barnsins óðfluga eins og óð fluga. Hún er búin að fá gjöfina frá okkur foreldrum. Nýtt, stórt og æðislegt rúm. Þetta er fyrsta rúmið sem keypt er nýtt handa henni. Fyrst var hún í rimlarúminu sem pabbi hennar og föðurbróðir voru í. Síðan var hún í rúmi sem við keyptum í Góða hirðinum. Það hét reyndar ekki Góði hirðirinn þá, heldur var á vegum Rauða krossins í smá skonsu rétt fyrir innan sjónvarpið á Laugaveginum. Næst keyptum við notaðar kojur fyrir þær systur  (sú yngri notar annað rúmið enn) og í fyrra fór hún á grjótharða mjóa svamp dýnu. Þannig að það var mjög gaman að kaupa 140cm rúm handa henni.

Ekki hlæja - en við pabbi hennar byrjuðum okkar búskap í jafn breiðu rúmi! Þeir sem þekkja okkur hlæja kannski - en þetta var fyrir mörgum, mörgum kílóum.  Og notuðum það alveg þar til sú eldri fæddist. Þarna lá ég eins og ógnar stór hvalur í litlu rúmi. Æi þetta var notalegt og gott.....


Carmina Burana

Ég fór og hlustaði á Óperukórinn og fleiri flytja þetta sígilda verk. Merkileg nokk þá var þetta bara í 2. sinn sem ég heyri það á tónleikum. Fyrra skiptið var líklegast 1976 eða 1977. Þá söng pabbi minn skemmtilega hlutverk svansins lánlausa sem steiktur er á teini. Hann söng hins vegar stóra tenórhlutverkið 1960.

Hann pabbi minn var góður maður og góður söngvari. Hefði orðið níutíu ára 19. mars s.l.


Helgin framundan

Það er partý í kvöld hjá RDK klúbbnum. Mig langar að fara en ég á rosalega erfitt að koma mér út úr húsi á föstudagskvöldum. Þetta eru greinileg ellimerki.....En hvað er betra en fá sér rauðvín eða bjór, hringa sig í sófanum og horfa á Gettu betur í vikulokin?

Á morgun förum við hjón í jarðarför í Skálholt. Þaðan verður Sveinn Skúlason í Bræðratungu kvaddur. Hann og tengdamóðir mín heitin voru systkynabörn og Gulli var í sveit hjá honum og Sigríði. Sveinn var skemmtilegur og glaðlegur maður. Ekki hitti ég hann oft en hann hafði afskapleg hlýja nærveru.


Fyndin uppákoma

Stór krummi upp í háu tré. Situr svona 10 metra fyrir ofan jörðu. Köttur upp á bílþaki mænir löngunar augum á krumma. Krummi dritar á köttinn. Kötturinn líður þetta ekki og klifrar upp í tréð. Krummi hreyfir sig ekki - veit sem er að hann hefur yfirhöndina. Miðja leið upp tréð verður kisa hræddu og þorir hvorki upp né niður. Fastu köttur í miðju tré. Krummi sem getur flogið í burtu þegar honum sýnist.

Kattareigandinn ég út á tröppur og talar köttinn niður úr trénu. Krummi situr rólegur og fylgist með. Kisa vælir úr hræðslu þegar hún fikrar sig ofur hægt niður grein af grein. Þegar kisa er komin niður á fasta landið flýgur krummi í burtu. Frelsinu fegin kemur kisa mjálmandi upp tröppurnar til matmóður sinnar.


Reiði

Mikið var ég reið þegar ég sá myndirnar af ofsaakstri vélhjólamanns. Myndirnar birtust í Kastljósinu í gær - sama dag og skýrsla Umferðarstofu um umferðarslys á liðnu ári var kynnt. Þar kemur meðal annars fram að átta létust vegna ofsaaksturs.

Þessi ökumaður keyrði á nær 300 kílómetra hraða og lagði líf sitt  og annara vegfarenda í mikla hættu.

Hvað er til ráða? Hrín ekkert á fólki? Snertir það fólk ekki að fimm barna móðir látist í umferðarslysi?


Anno 1972

KristinBjörg_01KristinBjörg_08Þetta er hún ég á fermingardaginn minn 3. apríl 1972. Ég fermdist í Kópavogskirkju í fyrsta fermingarbarnahópi Sr. Árna Pálssonar. Ég hafði nú ákveðnar hugmyndir hvernig ég vildi hafa hlutina og vildi hvorki vera með slöngulokka né blóm í hárinu. Á þessum tíma fóru fermingarstúlkur á laugardegi til að fá rúllur í hárið og svo var greitt úr og túberð og krullað á fermingardeginum. Ég man þá kvöl og pínu að þurfa að sofa með rúllur í hárinu. Ég vildi ekki bandaskó en keypti mér góða götuskó. Foreldrar mínir létu mig algjörlega um þetta. Lítil og sæt veisla var haldin heima hjá okkur í Hófgerðinu og komu nánustu ættingjar og glöddust með okkur. Ég fékk 4 hringi, tvo svefnpoka, píanóstól og pening. Mér finnst gaman að rifja þetta upp nú þegar fermingardagur stelpunnar minnar nálgast.

Um óléttur fyrr og nú

Ein af sjónvarpsþulunum er greinilega barnshafandi og sér maður kúluna stækka og mömmuna verðandi verða æ blómlegri. Ljómandi snotur sjón.

Þegar móðir mín gekk með eldri bróður minn þá bjuggu foreldrar mínir í Lundúnum og mamma vann í íslenska sendiráðinu þar í borg. Eitt af hennar störfum var að fara til dyra þegar dyrabjallan hringdi. Þegar mamma tók að stækka og auðséð var orðið að hún var kona eigi einsömul var henni góðlátlega tilkynnt að hún þyrfti ekki að fara til dyra meir. Svona var þetta - ekki æskilegt að konur sæjust og mikið á meðgöngunni hvað þá að opna dyr í sendiráði.

Það skal tekið fram að þetta var árið 1954


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband