Færsluflokkur: Bloggar

Prinsessa

Loksins fæddist alvöru prinsessa. Allir hinir þúsund prinsar og prinsessur á jörðinni falla í skuggann af þessari sem er ekta.

Svo á hún líka bróður sem er prins - ekki bara prins heldur krónprins. Reyndar sagði í fréttum útvarps í gær eða fyrradag að fædd væri krónprinsessa. Það er ekki alveg rétt.

Ég legg til að fólk hætti að kalla börn sem eru ekki með blátt blóð í æðum prinsessur og prinsa. Þetta er börn.


Ótrúlegt

Það er óskemmtileg lesning að fjöldi barna og unglinga með geðraskanir bíða eftir innlögn vegna plássleysis. Hvað er eiginlega í gangi hjá þjóð sem ekki getur hlúð að veikum ungmönum og lætur elstu borgarana bíða svo mánuðum og árum skiptir eftir hjúkrunar plássum?

Ég man hvað ég var stolt af íslenska heilbrigðiskerfinu hér einu sinni og talaði um það af miklum rembing á ameríkuárunum mínum. Sveiattann!


Upp og niður og leikhús

Sú eldri er lasin og gengur upp úr henni og niður úr henni líka -  ræfilstuskan. Við eigum miða í leikhús í kvöld en hún ætlar að vera í skjóli frænda síns á meðan.

Við ætlum á forsýningu á Gretti í Borgarleikhúsinu. Ég sá sýninguna í Austurbæjarbíói fyrir langa löngu og hlakka til að sjá hana aftur. Nágranni minn leikur titilhlutverkið. En hver verður í hlutverki Hönnu Maríu? Hún var hreint út sagt frábær sem Gullauga og söng "Gegnum holt og hæðir" svo enn er munað.

 


Gleðilegt sumar kæru vinir!!

Hér er búið að leggja á sumarkaffi borð. . Gulli fór í bakarí og keypti smá jummulaði og osta í Bónus. Ég bakaði tvö spelt brauð - annað með ólífum, hitt ekki. Svo er bara að hella upp á sterkt kaffi þegar gestirnir koma.

Við eigum vona á Ara mínum, mömmu hans Maríu Hebu og Wincie ömmu. Þetta verður gaman. Þetta hefur verið fínn dagur og allir hressir. Stelpurnar fengu smá sumargjafir frá Soffíu kisu.Kisa er með nýja ól og bjöllu um hálsin og er hávær sem aldrei fyrr.

 Það var gaman að fylgast með henni um daginn. Hún sat í stofunni og horfði út um gluggann. Svo byrjaði hún á veiðihljóðunum en hreyfði sig ekki. Vissi sem var að þetta var töpuð orusta. Krummi sat á þakinu á MS og þangað kemst Soffía ekki - sama hversu fim hún er.

Mikið er gott að fá svona aukafrí....


Bruninn mikli

Hún móðir mín hefur talað um það í gegnum árin hvað henni hefur fundist Haraldarbúð lítill sómi sýndur. Búðin sú var víst sú laaaaang flottasta í bænum - engin önnur komst í hálfkvist við hana. Svo hefur hver sjoppulegur staðurinn á fætur öðrum verið í húsinu. Síðast Pravda. Og húsið brann í gær

Kemur manni í gott skap!!

http://www.myspace.com/thezimmersband

http://www.youtube.com/watch?v=zqfFrCUrEbY


Frítt í strætó - eða þannig

Mikið er ég spæld að börn skuli ekki vera "námsmenn" hjá meirihlutanum í Reykjavík. Ég þori að veðja að ef börn fengju frítt í strætó þá gætum við alið upp strætónotkendur framtíðarinnar. Ég held að það þýði lítið að segja krökkum 16 - 18 ára að fara að nota strætó ef þau hafa ekki vanist á það áður.

Svo er það þetta með skutlið. Ég hef undanfarin ár verið sækja,skutla, senda mamma og er búin að fá nóg. Ætli að þetta skutl yrði ekki minna ef krakkar fengju frítt í strætó og strætóar fylltust af krökkum á leið í tómstundir. Það er ekki hættulegt að fara með strætó - það er gaman. Þetta voru allavega hálfgerðar félagsmiðstöðvar þegar ég var barn og unglingur í vesturbæ Kópavogs. Þaðan fóru fullir strætóar á hverju kvöldi "í bæinn" og heim aftur svona um 23:00. Maður sá margan sætan strákinn í strætó - já já og lenti á sjens og allt. Það var allavega mikill spenningur að sjá hver væri í vagninum. Og svo tíndumst við vinkonurnar inn í vagninn hver á sinni stoppustöð.

Ekki man ég eftir að okkur væri skutlað í bæinn eða sótt eftir bíó


Ný stafsetning

Við vorum að velta því fyrir okkur hjónin hvað það væri óþægilegt í þessu tölvuumhverfi að vera með alla þessa íslensku stafi. Við viljum leggja til að "y" verði lagt niður og "i" verði notað í staðinn. "Y" verði síðan notað í staðinn fyrir íslensku stafina. Þetta gæti verið dálítið ruglingslegt en lærist þó. Kannski ætti að kenna börnunum gömlu stafsetninguna og svo þegar þau hafa öðlast færni í henni þá væri hægt að kenna þeim að setja "y" í staðinn.

Kristín = Kristyn. Björg = Bjyrg. Þorsteinsd = Yorsteinsd.

Sæunn = Syunn. Læra = lyra. Notað = notay. Öflugur = yflugur.

Viy vorum að velta yvy firir okkur hjynin hvay yay vyri yyygilegt y yessu tylvuumhverfi ay vera mey alla yessa yslensku stafi.

Er þetta ekki alveg brilljant hugmynd?


Framsæti/aftursæti

Í vinnu minni fæ ég oft hringingar þar sem spurt er um hversu há börn þurfi að vera til að mega sitja í framsæti þar sem fyrir er virkur öryggispúði. Svar mitt er að lögin segi að barn þurfi að vera 150 cm á hæð. Það er lágmarkshæð.

Hjá mér hef ég það sem reglu að engin sem ekki hefur náð 12 ára aldri má sitja fyrir framan öryggispúða. Eldri dóttirin fékk fyrst að sitja í framsæti á 12 ára afmælisdaginn sinn þó svo að hún væri löngu búin að ná 150 cm. Nú er sú yngir orðin 166 cm og er enn í aftursæti enda verður hún ekki 12 ára fyrr en í ágúst. Spenningurinn í henni að sitja framí er líka lítill. Hann var dálítill þegar systir hennar fékk fyrst að sitja framí en nú skiptir þetta ekki miklu máli. Hún verður sjálfsagt glöð þegar að því kemur - en þetta er ekkert stórmál.

Svo fáum við líka spurningar hvort ekki megi setja púða undir börn svo þau hækki. Svarið er nei. Börn hafa ekki þann styrk sem til þarf til að taka á móti öryggispúða sem kemur á 300km hraða í fangið á þeim. Og það þarf ekki nema stuð á 30km hraða svo púðinn verði virkur.

Þá fáum við spurningar um hvað með lítið fólk. Það eru dæmi um að smávaxið fólk hafi marist við öryggispúðann en það hefur þó náð þeim styrk sem þarf til að taka á móti púðanum.

Svo er það útbreyddur misskilningur hjá sumum að börn kafni undan púðanum. Svo er ekki því púðinn fellur strax saman.

Svo má ekki gleyma því að púðinn virkar aðeins rétt ef öryggisbelti eru notuð. 

 


Prestar og prestar

Veit einhver þarna úti hvaða prestar eru að kæra Sr. Hjört Magna til siðanefndar Prestafélagsins?

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband