24.1.2009 | 15:42
Krabbamein í vélinda
Tengdamóðir mín heitin greindist með krabbamein í vélinda sumarið 1997. Þetta byrjaði með því að hún átti erfitt með að kyngja og á 17. júní var farið með hana á slysadeild því henni fannst standa í sér. Þar var hún mynduð og síðan lögð inn og greindist skömmu síðar með krabbann. Hún fór í geislameðferð sem dugði skammt og því var henni gefin kostur á að fara í skurðaðgerð. Gríðarlega erfiða og flókna aðgerið. Aðgerðin gekk vel en hún var bara það mikill sjúklingur að hún í raun hafði hana ekki af. Ekki dó hún þó á skurðarborðinu heldur lést mánuði síðar. Hún var á gjörgæslu allann þann tíma og í öndunarvél.
Nóttina eftir að hún var tekin úr öndunarvélinni og flutt á almenna deild dó hún. Það verður að taka fram að hún var á 75. aldursári og ekki hraust fyrir.
Hún hét Anna Soffía Steindórsdóttir og var fædd 4. janúar 1923. Ólst upp í Reykjavík og lauk verslunarprófi frá Versunarskóla Íslands. Hún vann hjá Rafmagnseftirlitinu og þar hitt hún mannsefnið sitt Pál Sigurðsson sem var nýkominn frá námi í rafmagnsverkfræði í Þýskalandi. Þau gengu í hjónaband að ég held 1949 og 1952 leit frumburður þeirra, Sigurður, dagsins ljós. Gunnlaugr Þór - minn maður - fæddist síðan 1957. Páll dó langt fyrir aldur fram aðeins 49 ára 16. desember 1966. Eftir lát hans fór Anna Soffía að vinna í Domus Medica sem bókari og skrifstofustjóri. Þar vann hún þangað til hún lét af störfum fyrir aldurs sakir.
Eldri dóttir okkar var á 5. ári þegar amma hennar dó og man eitthvað eftir henni. Hún man eftir henni sitjandi í stólnum sínum við stofu gluggann sinn - sem nú er stofugluggin okkar - og mataði hana á ís. Sú yngir var rétt rúmlega tveggja ára og man ekki eftir henni. En mikið glöddu þær hana stelpurnar. Enda einu barnabörnin.
Páll dó 16. desember og var jarðsunginn 21. desember. Anna Soffía dó 10. desember og var jarðsungin 20. desember.
Hver segir svo að desember sé alveg æðislegur mánuður?
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
19.1.2009 | 07:26
Fundurinn í gær
Hann var svakalega fínn samstöðufundurinn í Háskólabíói í gær. Fínir ræðumenn og flott tónlistaratriði. Nú þurfa Ísraelar bara að hundskast frá Gasa og láta ekki á sér kræla því þá er mér að mæta.
Nú er líka lag að koma hjálpargögnum inn á svæðið því samkvæmt fréttum í gær þá opnaðist svæðið og bílar með hjálpargögn komust í gegn. Hvar er hjálparstarf kirkjunnar núna?
Við stormuðum öll fjögur á fundinn og eftir hann þá skiptum við um sal í Háskólabíói og fórum og sáum Sólskinsdrenginn. Svo sannarlega fín og afar fróðleg mynd. Mæli með henni.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
17.1.2009 | 18:36
16. janúar
Gærdagurinn var 16. dagur janúarmánaðar. Þann dag fyrir 55 árum gengu foreldrar mínir - Kristín Pálsdóttir og Þorsteinn Hannesson í hjónaband. Víxlan fór fram hjá borgarfógeta í London þar sem þau störfuðu bæði og kynntust þar í borg. Hringarnir voru frá Íslandi því mamma hafði sent gardínuhringi til Íslands og systir hennar lét útbúa réttar stærðir af hringum eftir þeim. Þau nutu hjónalífs í 45 ár en í febrúar eru 10 ár síðan pabbi dó. Mamma, sem verður 83 ára á árinu, er við hestaheilsu og býr ein í íbúðinni sem þau bjuggu saman í síðustu árin. Hún syndir og spilar og fer mikið á bíó og í leikhús. Hún keyrir enn en er skysnöm í því og keyrir t.d. ekki í myrkri og vondri færð og reynir að fara leiðir þar sem hún þarf ekki að taka vinstri beygjur! Með þessu er hún mjög sjálfbjarga.
16. janúar féll snjóflóðið á Súðavík og ég man hvar ég var þegar ég frétti af því. Ég gekk með Bryndísi og var enn hress í kroppnum. Ég var að undirbúa þátt þar sem velja átti besta myndband ársisn 1994. Umsjónamaður þáttarins var Eva María Jónsdóttir sem þá var skrifta á Sjónvarpinu. Þetta var fysti þátturinn sem hún hafði umsjón með.
Við Eva stóðum á ganginum á 3.hæð sjónvarpshússins á Laugaveginum og spjölluðum saman þegar Elín Þóra Friðfinnsdóttir - Ella Þóra - kom í dyrnar á ganginum og sagði okkur að flóðið hefði fallið og að fréttabann hefði verið sem nú hefði verið aflétt hefði verið sett eftir flóðið. Við Eva María fórum síðan á Caffe Milanó og funduðum um hvernig við vildum hafa þáttinn. Útvarpið var opið á veitingahúsinu og gestir fylgdust með fréttum. Smá saman varð manni alvarleikinn ljós en engann grunaði þá og þarna hversu skelfilegt þetta flóð var.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
12.1.2009 | 06:44
Skammist ykkar!
Ja hérna hér - eigum við nú líka að fara að borga út til stórfyrirtækja? Að mér dauðri!
Hvað má almenningur í landinu segja - venjulegt fólk sem situr uppi með margra milljóna króna lán sem hefur hækkað svívirðilega. Og margir sjá fram á gjaldþrot?
Þessu fólki ber að hjálpa frekar en græðgisgenginu.
Veittu fólki lán en veðjuðu á veikingu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
11.1.2009 | 17:53
Grobbar sig af fjöldamorðum!
Andskotinn hafi það! þessi viðbjóðslegu morð á Palestínumönnum er ekkert til að grobba sig af. "Nálgast markmið....." já - það er auðvelt að vinna í ójöfnum leik.
Og ég skil ekki hvernig utnríkismálanefnd getur látið það segjast um sig að bíða með að þing komi saman til að fordæma þessi villimannlegu morð. Og annað skilur maður náttúrlega ekki hvernig þing getur farið í hátt í mánaðar jólafrí þegar landið er á barmi gjaldþrots.
En aftur af drápunum í Palestínu - ætlar Hjálparstarf kirjunnar ekki að hefja söfnun svo hægt sé að koma Palestínu mönnum til hjálpar og senda þeim hjálpargögn? - æi - nei það má ekki fara með hjálpargögn inn á svæðið. Helvítis fokking fokk.
ÉG ER BRJÁLUÐ AF BRÆÐI ÞESSA STUNDINA!
Olmert: Nálgumst markmið okkar | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
11.1.2009 | 16:41
Allar mættar
ÉG horfði á þessa mynd áðan - tók hana upp á sínum tíma. Dáldið mikið krúttleg mynd
Í lokin kom svo ein fríkaðasta útgáfa á "Brennið þið vitar" eftir Pál Ísólfsson sem ég hef heyrt. Þarna var þetta flotta lag ú Alþingishátðiðar kantötu 1930 komin í einhvern salsa búning og við það dönsuðu konurnar. Þetta er mjööööööööög fríkað
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
9.1.2009 | 16:40
Dieter Roth
Mikið svaklega var hún góð myndin hans Hilmars Oddssonar um listamanninn Dieter Roth. Við sátum alveg límd við sjónvarpið á nýársdagskvöld.
Mér fannst nálgunin afar skemmtileg; Hilmar þekkti Dieter náttúrulega persónulega og nálgaðist hann þannig - án þess að verða væminn eða að það væri á nokkurn hátt óþægilegt. Og fegraði ekki myndina af honum.
Ég kom í hús Dieters á Hellnum 1978 í sérkennilegum erindagjörðum. En sú saga verður sögð síðar....
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
6.1.2009 | 09:45
Skólamáltíðir og skólamáltíðir
Gæði matarins sem börnin fá er svkalega mismunandi.
Fyrir nokkrum árum var börnum í Vogaskóla boðið upp á aðkeyptan mat. Hann var hryllilegur og eftir mánuð grátbáðu dætur mínar að fá að hætta í matnum og verða aftur nestaðar að heiman. Þessi matur var eldaður í einhverju stóreldhúsi og hitaður upp í skólanum. Oft var hann líka naumt skammtaður.
Nú er komið fínt eldhús í skólann og þvílíkur munur. Þar er boðið upp á fjölbreyttan og hollan mat og allir ánægðir. Þær voru einmitt að ræða í gær stelpurnar um salat barinn og heimabakaða brauðið. Og mér finnst hann ekki dýr - við borgum 10.000 á mánuði fyrir báðar stelpurnar.
Vel fylgst með skólamáltíðum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
31.12.2008 | 16:43
Annáll
Smá yfirlit yfir líf mitt og fjölskyldu minnar á árinu sem er að líða:
Þetta hefur á margan hátt verið hið ágætasta ár. Ég átti því láni að fagna að verða fimmtíu ára þann 8. mars og mikið líður mér vel með að vera komin á þennan virðulega aldur. Mikið flottari tala en fjörutíu og eitthvað.
Annars hefur þetta ár einkennst talsvert af tíðum utanferðum - allavega tíðum á okkar mælikvarða. Í gegnum tíðina höfum við ekki ferðast oft til útlanda en ferðuðumst mikið hér innanlands meðan stelpurnar vorum yngri. Enda er fátt skemmtilegra.
En allavega þá urðu mínar ferðir 5.
Í mars fórum við Gulli til London og vorum þar yfir afmæli mitt. Þangað höfðum við ekki komið í ein ellefu ár og nutum þess virkilega að vera þarna í fimm daga. Hittum Ingu Huld æskuvinkonu mína og svo Walter vin minn frá Íþöku og Steve kærasta hans. Fórum á Sound of Music - hvað annað - borðuðum indverskan mat og versluðum á stelpurnar.
Í lok apríl fór síðan Dómkórinn til Dresden og við hjón að sjálfsögðu með. Ógleymanleg ferð með frábæru fólki og dásamlegri tónlist.
Í júlí fórum við stelpurnar á heimilinu síðan til Benidorm með Hannesi bróður og fjöldkyldu hans. Það var fín ferð í sól og sjó.
Gulli hélt síðan til Beijing í byrjun ágúst og vann við Ólýmpíuleikana á vegum EBU. Ég flaug utan þann 21. og lenti að morgni 22. Leikurinn stórkostlegi við Spánverja var þá um kvöldið og betri byrjun á þessari ævintýraferð er varla hægt að hugsa sér. Við ferðuðumst um Kína í hálfan mánuð og það var alveg frábært. Við fórum m.a. til Sjanghæ, sigldum á Yangtse fljóti, sáum Terracotta herinn og auðvitað allt sem hægt er að sjá í Beijing.
Eftir tiíu daga stopp hér heima svona rétt til að knúsa stelprnar var síðan haldið til London öðru sinni og nú í árshátíðarferð með starfsmönnum Umferðarstofu. Og London sveik ekki frekar en fyrri daginn. Árshátíðarkvöldverðurinn sjálfur var á Thames ánni.
Það var fínt að fara í þessar ferðir allar á árinu - ekki eigum við von á að fara utan á þessu ári hvað þá svona oft!
Í sumar dvöldum við viku í bústaðnum en leigðum hann annars til Kennarasambandsins sem síðan leigir hann til sinna félagsmanna. Við hjón erum þó dugleg að fara bara tvö eina uppeftir og vera þá bara nóttina.
Stelpunum mínum hefur gengið vel á árinum. Anna Kristín byrjaði í 10. bekk og lýkur grunnskólanámi í vor. Bryndís Sæunn Sigríður byrjaði aftur á móti í 8. bekk og það er ekkert smá gaman að vera komin á unglingastig í Vogaskóla. Anna hóf að æfa trompfimleika á árinu og fer tvisar í viku. Bryndís náði sér í 1. brúna beltið í karate og það er mjög flott. Anna Kristín byrjaði líka í haust að vinna tvo morgna í viku á sínum gamla leikskóla Sunnuborg. Þetta er úrræði fyrir þessa les- og reikniblindu krakka sem ekki taka samræmd próf og er í gegnum Vinnuskólann. Það er skemmst frá því að segja að hún ELSKAR þessa vinnu. Svo mikið að hún hefur farið þrjá morgna í jólafríinu. Bryndís byrjði í fermingarfræðslu og fermist í lok apríl.
Ég fór á nokkra góða tónleika á árinu; hæst ber tónleika Sigurrósar í Laugardalshöllinni ekki alls fyrir löngu og svo tónleikar Þursaflokksins á Græna hattinum á Akureyri. Dómkórinn söng Jólaóratóríu Bachs í byrjun ágúst og svo voru fráæbrir tónleikar hjá okkur í Vorru Frúar Kirkju í Dresden. Ný endurbyggðir kirkjunni.
Við hjón tókum það gifturíka spor að byrja í World Class og sjáum ekki eftir því. Megrun og Kúr eru bannorð á heimlinu en við reynum að borða hollara og það gengur vel. Hreyfingin og hollara fæði hefur skilað því að við erum búin að missa samtals um 30kg. Nóg eftir enn get ég sagt ykkur og þetta kemur allt með kalda vatninu.
Skellur ársins kom aftur á móti fyrir mánuði þegar Gulla var sagt upp hjá RÚV eftir 22ja ára starf.
Hver veit hvar við munum dansa næstu jól?
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
31.12.2008 | 16:40
Handboltaannálinn
Við horfðum að sjálfsögðu á dagskrána um handboltalandsliðið. Og minningarnar flæddu.´
Ég man eftir leikinn við Pólverja aðfaranótt 20. ágúst. Eftir sigur á þeim var ljóst að við vorum að fara að leika við Spánverja í undanúrslitum. Ég var á vakt í umferðarútvarpinu og var mætt snemma morguns niður i vinnu. Rútínan er sú að hringja á nokkrar lögreglustöðvar um landið og athuga hvernig nóttin hafi verið og hvort brýnt sé að koma einhverju á framfæri í útvarpinu. Ég var svo hátt uppi því ég vissi að ég sæi leikinn í Beijing. Ég tilkynnti það á hverri einustu stöð sem ég hringdi í að ég kæmi til að sjá leikinn við Spánverja í Beijing. Og uppskar að sjálfsögðu upphrópanir og andvörp frá löggunni um landið. Sumir báð um að fá að fara með mér. Allir samglöddust.
Þegar ég svo sá myndirnar áðan frá handboltahöllinni þá hríslaðst um mig gæsahúð því ég hef aldrei upplifiað neitt þessu líkt. Að vera þarna á leiknum við Spánverja var stórkostlegt. Og það sem ég brynnti músum þegar við fengum silfrið og íslenski fáninn fór á loft. Ógleymanlegt og ólýsanlegt.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)