Handbolta fár

Já nú er þetta allt að gerast - ég verð brátt heltekin af handbolta. Ekkert toppar þó Bejing 2008 og auðnast það að sjá leiki íslenska liðsins við það spánska og síðan það franska.
Þegar ljóst var að Gulli færi til Bejing þá ákáðum við að ég hitti hann í lok leikanna og við ferðuðumst um Kína. Í mars fór ég að athuga með flug og ferðir og keypti síðan fyrir okkar fína ferð þar sem við sáum Sjanghai, Terracotta hermennina og sigldum á Yangtse fljóti svo eitthvað sé nefnt. En þarna í mars pantaði ég semsagt flug út til Beijing. Ég man þegar ljóst varð að við lékjum við Spánverja og ég sæi leikinn með eigin augum. Ég lenti að morgni leikdagsins og síðdegis fórum við hjón í fjölmiðla höllina og Gulli sýndi mér svæðið. Og svo var haldið á leikinn. Að sitja þarna með 40 - 50 íslendingum og hvetja liðið var stórkostleg upplifun. Ég fæ enn gæsahúð við tilhugsunina.

20 vs. 20

Á miðvikudag eru liðin 20 ár síðan ég hætti að reykja. Ótúrlegt en satt. Ég var mikil reykinga manneskja. Reykti vel á annan pakka á dag af Winston long. Og hafði reykti í 20 ár þegar ég hætti. Byrjaði 14 ára og hætti 34 ára. Og reykti og reykti og reykti. Enda upp á blómatíma reykinga; það mátti reykja hvar sem var og konur ekki síður en karlar. Alin upp á reykinga heimili. Pabbi reykti mest - enskar Players og mamma svona stundum. Pabbi var þó reykinga maðurinn á heimilinu sem reykti uppi í rúmi og við matarborðið og hvar sem hann fékk því við komið. Og öll reyktum við systkinin. Þetta var bara svona. Og það mátti allstaðar reykja. Jú þetta var dýrt - en æi bara svona eins og aðrir hlutir. Og ekkert sannaði að þetta væri óholt - jú jú - við vissum það svo sem. En - það er svo margt óholt. Og svo vorum við frjáls!
En svo fóru hlutirnir að breytast og það varð ekki jafn skemmtilegt og sjálfsagt að reykja. Þetta varð æ dýrar og jú - nú vissum við að þetta var óholt. Og svo var farið aðeins að þrengja að manni varðandi reykingar. Helv. ofstopi.
Mig langaði að eignast barn - börn. Og að fara í þrígang í glasafrjóvgun og reykja enn var ekki eitthvað sem var rétt. Jæja - nú skyldi hætta. Ömurlegt, helvítis helvíti. Grátur og gnístran tanna. Nú væri komið að því. Dagsetning ákveðin. Laugardagur eftir viku skyldi það vera. Og svo var reykt og reykt og reykt. Og drukkið rauðvín og reykt því ekki ætlaði ég að smakka áfengi eftir að ég hætti að reykja - engin ástæða til.....Best bara að hætta þessu öllu. Laugardagsmorguninn rann upp - heilmikið drukkið af kaffi og krossgátan í Lesbókinni ráðin. Aðeins upp í rúm aftur - meira kaffi og margar sígarettur eftir lúrinn. Hið mjög svo skelfingarfulla hádegi rann upp - lööööööng sturta - smá kjökur og vorkunsemi, hárið blásið - nikótíplásturinn á handlegginn og ekki varð aftur snúið.
Og almáttugur minn hvað þetta var rétt og góð ákvörðun REYKLAUS Í TUTTUGU ÁR ER ALGJÖR ÆÐI!!!!! Mér er skít sama með öll kílóin sem komu - það er allt betra en reykingarnar. Vááá - mig langar stundum enn í sígarettu - sérstaklega þegar ég horfi á bíómynd og allir reykja eða ég les um miklar reykingar - þá finn ég löngunina læðast að mér. En stendur stutt yfir. Og hugsið ykkur - 05. ágúst 1992 - eitthvað um þrem vikum eftir að ég hætti að reykja þá fékk ég að vita að ég ætti von á barni. Þetta er eins og lygasaga - en sannleikur.

Að eignast barn er dásamlegt kraftaverk

Þessi dagur - 14. apríl 1993 - er stærsti dagur sem ég hef lifað. Þann dag var eldri dóttir mín Anna Kristín Gunnlaugsdóttir tekin með keisaraskurði á Landspítalanum. Og þvílíkt ævintýr. Að eignast fallega, hrausta, rauðhærða og stóra stelpu - og ég orðin 35 ára og pabbinn og maðurinn minn 36 ára. Í dag er semsagt Anna Kristín 19 ára. Hennar leikskólafræðsla fór fram á Sæborg og Sunnuborg og  Vogaskóli var hennar grunnskóli. Nú stundar hún nám í Borgarholtsskóla og er þar á sérnámsbraut/starfsbraut. Hún tók bílpróf í haust og ekur eins og herforingi þó hún mætti treysta sjálfri sér aðeins betur í akstrinum. Það eitt veit ég - hún er fanta góður bílstjóri og eru allir vegir færir. Hún gengur mikið og hefur áhuga á leiklist og er skráð í sérstakan klúbb fyrir aukaleikara. Og hefur komið fram í auglýsingu fyrir nýju ræktina í Holtagörðum. Hún er barngóð og elskar litlar frænkur og frændur. Hún er algjör snyrtipinni og herbergið hennar lítur út eins og í húsgagnabæklingi! Og það kemur sér vel fyrir okkur því hún moppar og þurkar af og passar að eldhúsið okkar sé eins og hjá Bree Vandekamp.

Og nú er stórt ævintýri í uppsiglingu hjá henni; hún fer eftir tvær vikur á lýðháskóla á Jótlandi ásamt fjórum öðrum nemendum af starfsbrautinni og fjórum kennurum. Þar verða þau í tvær vikur og stunda nám í skólanum ásamt því að skoða sig um og ekki má gleyma H&M. Og það er mikill spenningur hjá hópnum og þau æfa sig nú í dönsku til að geta boðið góðan dag og bjargað sér sem best.

Í kvöld á hún von á gestum og foreldrar hennar sameinast nú í tertu gerð.

Elsku Anna mín - takk fyrir að vera til og takk fyrir að vera þú.


Vífilsstaðir

Mér þykir vænt um Vífilsstaði. Þar fæddist tengdafaðir minn heitinn - Páll Sigurðsson - árið 1917 í umræddu yfirlæknishúsi sem nú er að hruni komið en faðir hann Sigurður Magnússon var þá yfirlækir hælisins - fyrstur manna. Og þar ólst Páll upp með systikinum sínum Magnúsi, Jóhönnu og Margréti. Öll eru þau nú látin.

Þetta er nú meira djö....bullið

Notar stærð 16 og er flokkuð feit. Ekkert um að hún var hreystin uppmáluð og leit mörgum sinnum betur út í fyrri stærð en hún gerir núna eins og einhver horrengla.
mbl.is Mér fannst ég aldrei vera feit
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Afmælisstúlkan Anna Kristín

Elsku stelpan mín hún Anna Kristín er átján ára í dag. Eftir að hafa legið inni á meðgöngudeild í rúmar tvær vikur í apríl 1993 var ákveðið að taka barnið með keisaraskurði því í sónar kom i ljós að hún var með höfuðið upp við bringuspalir móður sinnar. Og þarna kom hún - falleg, stór og rauðhærð. Hún fékk strax nafnið Anna Kristín eftir ömmum sínum - föður ömmu Önnu Soffíu og móður ömmu Kristínu Páls. Og gleði okkar foreldra var ólýsanleg enda langþráð barn komið í heiminn til okkar sem þá vorum 35 og 36 ára.

Anna Kristín er glæsilega stúlka; há, grönn og með ótrúlega fallegt rautt hár niðrí mitti. Hún er að ljúka öðru ári sínu á sérnámsbraut Borgarholtsskóla. Hún hefur yndi af leik og söng og notar hvert tækifæri til að fara í leikhús. Hún er mikill aðdáandi Disney mynda - segist varðveita í sér barnið með að horfa á þær. Uppáhalds sjónvarpsefni hennar er Desperate Housewives og lætur hún ekki nokkurn þátt fram hjá sér fara. Og svei mér þá ef hún líkist ekki bara Bree Van de Kamp þegar hún sveiflast um húsið og gerir fínt í kringum sig.

Anna er góð stúlka og má ekkert aumt sjá. Hún er hjálpsöm á heimilinu og eldhúsið er aldrei eins fínt eins og þegar hún hefur skúrað, skrúbbað og bónað. Hún á ótrúlegt safn af skvísuskóm og safnar skartgripum í gríð og erg. Hún er dugleg að hreyfa sig og æfir fimleika tvisar í viku hjá Ármanni og telur ekki eftir sér að fara sinna ferða gangandi og í strætó. Hún er dugleg í ökunáminu og ef fram fer sem horfir verður hún komin með bílpróf snemma sumars.

Það er ekki alltaf logn miklli okkar mæðgna en fárviðrin eru sjaldgæf, hvassviðrin fátíð en gola stöku sinnum.

Elsku Anna mín Kristín - til hamingju með afmælið þitt í dag og takk fyrir frábær átján ár.


Jólabaðið í janúar

Ellefta desember s.l. datt hún móðir mín á Laugaveginum og handlegssbrotnaði illa. Þurfti að fara í aðgerð þar sem allt var neglt saman og er búin að vera í gifsi síðan. Hún var þrjár nætur á spítala og þá tókum við börnin hennar þrjú við. Ekki málið - við erum hraust og hress og með stálpuð börn öll og sáum fram á að geta bjargað málunum. Með dálitlu skipulagi. Farið var til hennar á morgnanna, einhver kíkti síðdegis, við höfum verslað, hjálpað henni með ýmisleg smotterí. Dóttir mín hefur þrifið hjá henni og allt gengið vel. Enda hún mamma afar hraust og hress kona sem verður 85 ára á árinu. En það var eitt sem við vildum fá aðstoð við - og það var að baða hana. Bæði er að aðstaðan hjá mömmu er ekki sérlega góð og svo er bað nú talsvert prívat mál og ekki sjálfgefið að maður vilji láta sína nánustu hjálpa sér við böðun. Ég hringdi í Heilsugæslustöðina í Kópvogi til að athuga með aðstoð. Bað ekki um aðstoð við þrif, ekki að hún fengi matarsendingar - bara hjálp við böðun. En fékk þau svör að það væri biðlisti - biðlisti fram í janúar!!! Hafiði þið vitað annað eins. Kona sem er 84 ára og nýtur engrar þjónustu frá bæjarfélaginu gat fengið bað í janúar. Auðvitað björguðust málin. En ég kann ekkert að baða fullorðið fólk, ég kann ekkert að búa svo um hnútana að gifsið blotni ekki. En þetta hefur gengið vonum framar.

Ég sagði að mamma hefði ekki notið nokkurrar þjónustu frá bænum. Það er ekki rétt. Hún er ákafur sundiðkandi og er eins og grár köttur á bókasafninu.

En ef bæjarfélagið hefði fengið að ráða væri hún enn óböðuð þetta tæpum fjórum vikum eftir að hún brotnaði.

Mér er ekki skemmt......


Bankarán vs. bankarán

Bankarán eru í eðli sínu ekki fyndin. Mikið hlýtur fólkinu í Arion banka í Árbæ að hafa liðið illa í dag þegar þeim var ógnað með steini. Þessi frétt var númer tvö á RUV. Þar kom fram á ræningjanna væri leitað. Ég veit ekki hver staðan er á því máli er núna. Frétt númer eitt var líka um bankarán. Þegar eigendur Kaupþings lánuðu sjálfum sér og stálu síðan peningnum - eða voru þetta peningar eða bara pappír? Það er algjörlega vitað hverjir þessir þjófar eru  - en þeir ganga samt lausir. Skrýtið ekki satt?


Í ömmuleik

Næstu daga ætla ég að vera í ömmuleik. Ég ætla að passa litla frænda minn Högna Dignus Maríuson meðan foreldrarnir eru í stuttri ferð til London. Ég er búin að koma mér fyrir á heimili þeirra og ætla að fíla það í botn að umgangast ungann litl næstu dægur. Stóri bróðir er hjá ömmu sinni. Nú bíð ég eftir að drengurinn vakni - þá tekur við léttur morgunverður og dagmannan. Ég held síðan til vinnu.

Should I stay or should I go?

Mér skapi næst að yfirgefa Vinstri græna endanlega. Ekki hef ég alltaf verið hrifin af starfinu þar; var t.d. mjög ósátt eftir borgarstjórnarkosningarnar. En núna er ég alveg standandi hissa. Auðvitað þarf að klára umræðuna um Evrópusambandið! Mér hefur hingað til fundist afstaða VG til Evrópumála vera nokkuð þroskuð - hjá íhaldinu má ekki ræða þessi mál og þöggunin er algjör og Samfylkingin vill greinilega hoppa upp í hjá Evrópusambandinu hvað sem tautar og raular. Afstaða VG hefur verið sú að við eigum að fá að kjósa um það hvort við viljum vera með eða ekki. Eftir að við vitum upp á hvað er boðið. En núna vilja þar sumir hreinlega hætta viðræðum. Það verður að fá botn í þetta mál og lofa okkur að kjósa.

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband