17.1.2009 | 18:36
16. janúar
Gærdagurinn var 16. dagur janúarmánaðar. Þann dag fyrir 55 árum gengu foreldrar mínir - Kristín Pálsdóttir og Þorsteinn Hannesson í hjónaband. Víxlan fór fram hjá borgarfógeta í London þar sem þau störfuðu bæði og kynntust þar í borg. Hringarnir voru frá Íslandi því mamma hafði sent gardínuhringi til Íslands og systir hennar lét útbúa réttar stærðir af hringum eftir þeim. Þau nutu hjónalífs í 45 ár en í febrúar eru 10 ár síðan pabbi dó. Mamma, sem verður 83 ára á árinu, er við hestaheilsu og býr ein í íbúðinni sem þau bjuggu saman í síðustu árin. Hún syndir og spilar og fer mikið á bíó og í leikhús. Hún keyrir enn en er skysnöm í því og keyrir t.d. ekki í myrkri og vondri færð og reynir að fara leiðir þar sem hún þarf ekki að taka vinstri beygjur! Með þessu er hún mjög sjálfbjarga.
16. janúar féll snjóflóðið á Súðavík og ég man hvar ég var þegar ég frétti af því. Ég gekk með Bryndísi og var enn hress í kroppnum. Ég var að undirbúa þátt þar sem velja átti besta myndband ársisn 1994. Umsjónamaður þáttarins var Eva María Jónsdóttir sem þá var skrifta á Sjónvarpinu. Þetta var fysti þátturinn sem hún hafði umsjón með.
Við Eva stóðum á ganginum á 3.hæð sjónvarpshússins á Laugaveginum og spjölluðum saman þegar Elín Þóra Friðfinnsdóttir - Ella Þóra - kom í dyrnar á ganginum og sagði okkur að flóðið hefði fallið og að fréttabann hefði verið sem nú hefði verið aflétt hefði verið sett eftir flóðið. Við Eva María fórum síðan á Caffe Milanó og funduðum um hvernig við vildum hafa þáttinn. Útvarpið var opið á veitingahúsinu og gestir fylgdust með fréttum. Smá saman varð manni alvarleikinn ljós en engann grunaði þá og þarna hversu skelfilegt þetta flóð var.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.