21.12.2008 | 19:07
Helgin
Þrátt fyrir óbærilegan kvíða og ótal óleysta hnúta í maga þá hefur helgin verið ágæt. Þökk sé góðum manni og yndislegum stelpum.
Við erum búin að skúra, skrúbba og bóna og húsið er komið í ágætt ástand. Síðdegis í gær fórum við hjón í smá jóla útréttingar, komum síðan heim og bjuggum til óheyrilega góða pizzu og horfðum síðan á The Sting. Myndin er 37 ára gömul og eldist mjög vel. Plottið er frábært.
Í gærkvöldi fylltist herberg eldri heimasætunnar af fínum og kátum 10. bekkingum. Þau höfðu farið í brjálað snjóstríð og komu hingað inn hundblaut með rjóðar kinnar. Það var gaman.
Eftir smá heimastúss í dag fórum við stelpurnar á Laugaveginn. Þar var frábært veður og fjöldi manns á ferli. Eitt og annað smotterí keypt.
Gulli beið með kvöldmatinn þegar við komum heim og núna er ró að færast yfir heimilið. Sú yngri er farin á bíó með félögum og ég ætla að horfa á fréttir og auðvitað Sommer.
Svo er bara að þrauka 2 daga í vinnunni og vona að svarti hundurinn geri sig ekki of heimakominn hjá mér. Það er það síðasta sem ég þarf.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.