7.1.2008 | 11:58
Af sumarbústaðalífi
Ég fór að hugsa um sumarbústaðaferðir okkar fjölskyldunnar eftir að ég sá mynd hjá www.ragnhildur.blog.is af hennar fjölskyldu í hörkufrosti við sumarbústaðabyggð.
Við fórum mikið í bústaðinn með stelpurnar litlar og stundum spekúlera ég í því hvernig maður nennti - útbúnaðurinn var þvílíkur. Það þurfti að vera með útifatnað fyrir öll veður - kuldagalla, kuldaskó, trefla, vettlinga, hosur, stigvél, regnfatnað, peysur og tonn af fötum og tvær tegundir af bleyjum á tímabili. Svo þurfti vagn svo hægt væri að fara í göngutúr, dót, teppi og endlausan útbúnað. Bíllinn úttroðin.
Og í þá daga var ekkert rafmagn nema af sólarsellu - sem þýðir að ekkert var sjónvarpið til að hafa ofan af fyrir okkur. Og heiti potturinn kom ekki fyrr en 2003. Og þegar vont var veður gat tíminn stundum verið lengi að líða. En sundlaugarnar allt í kring voru frábærar. Ég held við höfum heimsótt allar laugar í Hreppum, Skeiðum, Tungum og Byggðum. Og ég man eftir okkur í ausandi rigningu að leita að róló til að viðra þær.
Og svo að ganga frá öllu aftur - með tvö smábörn.
En þetta gerðum við nú samt, helgi eftir helgi. Og við fórum hvert sumar í löng ferðalög um landið. Stundum gistum við á gistiheimilum, stundum í stéttarfélagshúsum, einu sinni skiptum við á tjaldvagni og bústaðnum okkar. Einu sinni leigðum við okkur fellihýsi á Egilsstöðum og fórum þar um allt.
Þessar ferðir um landið voru hreint út sagt frábærar! Og eitt sinn var ég að hjálpa annari hvorri þeirra með landafræðina við að merkja inn á kort hvert hún hafði komið og þá hafði verið ferðast í alla landshluta - og suma oft eins og austfirði og norðurland.
Maður kom kannski ekki sérlega hvíldur úr slíkum ferðum en með fegurð landsins í hjartanu.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.