29.12.2007 | 14:48
Hefðir, siðir, venjur.
Hangikjöt á jóladag - það er ófrávíkjanlegt. Svörin hans Sr. Bjarna Þorsteinssonar er eitt af því sem er ómissandi um jólin. Nú geng ég um húsið og raula "Önd mín lofar drottinn og minn andi gleður sig í Guði skapara vorum" - sópranröddina. Ísinn hennar mömmu er líka eitt af því sem ekki má missa sig. Og ég sýð alltaf allt of mikið rauðkál. Það er ómissandi.
Jólalag Ríksútvarpsins er líka ein af þessum góðu hefðum. Ekki veit ég hvað sú hefð er gömul. Lagið í ár var sérlega fallegt eftir Hildigunni Rúnarsdóttur bloggvinkonu mína og dóttur Rúnars og Finnu Dóru. Ég heyrði það sem síðasta lag fyrir fréttir á jóladag mjög fallega flutt af systur tónskáldsins Hallveigu Rúnarsdóttur.
Eitt af eftirminnilegu jólalögum RÚV er eftir Jórunni Viðar. Ég tárast þegar ég heyri það.
Ég tárast líka þegar ég heyri "Bráðum koma blessuð jólin" sem síðasta lag fyrir fréttir á aðfangadag. Í mínu ungdæmi var það alltaf sungið af barnakór og þannig vil ég hafa það. Þetta er nú einu sinni lag barnanna. Það hefur undanfarið verið flutt af SÍ í prýðilegri útsetningu og undir stjórn Þorkels Sigurbjörnssonar. En ég vil það sungið
Svo eru það verðlaun úr Rithöfudasjóði RÚV. Ekki veit ég hver hlaut þau í ár en getur verið að þau hafi verið veitt fyrir jól? Þau hafa alltaf verið afhent á gamlársdag. Ekki rjúfa þá hefð.
Annars reyni ég að láta klukkuna ekki stjórna mér. Mér finnst að hjá mörgum að klukkan sé farin að stjórna þeim á þann hátt að ekki sé hægt að gera annað á vissum tímum en það sem planað var. Ég á við að heimilisreglur og klukka stjórni öllu og geri lífið bara flóknara. Það er vissulega gott að hafa einhverja reglu, en reglan má ekki stjórna. Ef mig langar í bíó klukkan sjö þá fer ég en hætti ekki við þó kvöldmatur sé planaður klukkan hálf sjö. Andsk. hafi það - kvöldmatinn hlýtur að mega snæða á öðrum tímum. Hér þýðir reyndar ekkert að plana neitt varðandi kvöldmat. Heimilisfaðirinn kemur heim á öllum timum og annað barnið er í íþróttum oftar en ekki til klukkan sjö. Frekar vil ég frjálsan tíma svo við getum borðað saman.
Hún mamma mín vill hreyfa sig á hverjum dagi. Þrjá morgna vikunnar fer hún í sund og sundleikfimi og líður illa ef hún þarf að sleppa. Hún reynir að fara út að ganga aðra daga en í svona færð þá er það ekki sérlega gæfuríkt. Ég nefndi það um daginn hvort hún vildi ekki fara og synda fleiri daga vikunnar þegar erfitt er að ganga en það gat hún ekki hugsað sér.
Svo þetta með Jesus Christ Superstar sem frumsýnt var í gær. Hvað á þessi vitleysa eiginlega að þýða!!!! Ég vil sjá Jesú í sandölum og kufli og allt eins og það á að vera. Tek fram að ég er ekki búin að sjá sýninguna er er búin að plana það. Var reyndar harðákveðin þar til ég sá að þetta er svona "tímalaus sýning"
Ég ætla að fara að sjá Travíötuna í Íslensku Óperunni og ég brjálast ef fundinn verður annar tími fyrir sviðsetninguna. Ég vil sjá heldri manna heimli, velúr og hanska upp að olbogum. Ekkert nútíma kjaftæði. En tónlistin verður í alla fall sú sama - guði sé lof fyrir það!
Athugasemdir
Er ekki Önd mín lofar... tónið hjá prestinum og svo tekur kórinn við?
Takk fyrir hrósið, gott að heyra. Var einmitt að fá borgað fyrir lagið, meira að segja meira en ég hélt, má vel notast við það.
Einhver sagði að það að sýna Jesus Christ Superstar um jólin væri eins og að syngja heimsumból í júlí. Auðvitað er þetta páskaverk en ekki jóla...
Rithöfundaverðlaunin eru þegar afhent, var beint á undan frumflutningnum á laginu mínu, í Víðsjá þann 20. des. Hlustaðu bara á þáttinn ;)
Hildigunnur Rúnarsdóttir, 29.12.2007 kl. 18:04
Jú einmitt - þá tekur kórinn við með Hallelújað sem mörgum finnst vera hápunkturinn á jólamessunni. Í ár söng María Marteins það í útvarpsmessunni.
Kristín Björg Þorsteinsdóttir, 30.12.2007 kl. 17:05
Svo þú kveljist ekki við að heyra ekkert um það á Gamlársdag, hver hlaut verðlaun úr Rithöfundasjóði RUV, þá upplýsist það hér með að hefðin hefur verið rofin.
Verðlaunin í ár voru veitt á afmælisdegi RUV sem er nokkrum dögum fyrir jól og þau hlaut Kristín Steinsdóttir
Gleðilegt ár mín kæra!
Viðar Eggertsson, 30.12.2007 kl. 19:38
Það sem ég meinti er að MM söng "Önd mín lofar..." í messunni klukkan 18:00.
Kristín Björg Þorsteinsdóttir, 31.12.2007 kl. 11:12
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.