30.11.2007 | 10:18
Date - böll
Eldri daman fór uppdressuð á date-ball í Vogaskóla í gær. Við foreldrarnir hvöttum hana til að fara þó svo að hún "hefði ekki date". Enda fátt skemmtilegra en að skemmta sér í glöðum hópi skólafélaga. Hún kom heim og sagði að það hefði verið "djíös fokking gaman". Og ljómaði. Ég hef undanfarin ár verið alfarið á móti þessum date-böllum. Ekki því að að ball sé haldið heldur undir þessum formerkjum. Ég sendi skólastjórnendum og formanni menntasviðs þennan póst í vikunni:
Sælar veriði
Enn er runninn upp tími date-balls í Vogaskóla!
Ég get ekki orða bundist - mér finnst svona böll vera algjör tímaskekkja og setja gífurlega pressu og stress á krakkana.
Fyrir strákana er þetta erfitt - á ég að þora að bjóða þessari? eða þessar? hvað ef mér verður hafnað?
Fyrir stelpurnar er þetta alltaf spurning - verður mér boðið? Mig langar - en enginn býður mér? Er ég ljót, feit, leiðinleg? Vill enginn láta sjá sig með mér?
Svo til að bíta höfuðuð af skömminni þá eru þeir sem ekki "eiga date" settir í pott og dregnir saman. Og hvað ef þú dregst á móti aðila sem þú vilt engann veginn fara með? Og það vita ALLIR að þú hefur verið dreginn úr pottinum.
Í alvörunni, þá er árið 2007 og við erum að taka upp amerískan sið sem þykir ekki par til fyrirmyndar vestanhafs. Og þetta er á skjön við alla umræðu um kvenfrelsi.
Hvað segir nemendaverndar ráð við þessu?
Nú er unnið samkvæmt Olweus áætlun í skólanum - hvernig samræmist svona lagað þeirri áætlun?
Ég gerði líka athugasemd við þetta í fyrra og ég held að það hljóti að vera hægt að gera þetta öðruvísi - án þess að við séum að taka skemmtun eða ball af krökkunum.
Ég veit að það er erfitt að breyta svona hefðum en ein leiðin til þess er t.d. að þegar einhver ákveðin árgangur byrjar í unglingadeild - t.d. næsta haust - þá er þeim krökkum gert ljóst að ekki verði date ball fyrir þau heldur verði einhverskonar önnur skemmtun. Samt verði haldið date ball fyrir hina tvo árgangana - síðan fyrir einn og svo bara lognast þetta út af og eftir smá tíma þá man enginn eftir þessum skrýtnu böllum.
Mikið þætti mér vænt um að heyra frá ykkur um málið
með vinsemd og virðingu
Kristín Björg Þorsteinsdóttir
Athugasemdir
Alveg er ég sammála. Þetta er óþolandi asnalegt. Ég vissi af stúlku í USA fyrir svona þrjátíu árum sem var að fara á taugum af því henni var aldrei boðið á böllin.
Alveg óþarfi að vera að taka upp þessa dellu hér. Kv. Systa.
Systa (IP-tala skráð) 30.11.2007 kl. 16:20
Ég segi nú eins og kom fram hjá þér, Kristín. Af hverju er verið að apa einhvern amerískan sið hérna? Væri ekki hægt að halda ball eins og Kvennó gerir "Eplaball". Þemað er epli. Það mætti halda "rósaball" eða "lakkrísball" eða með einhverju öðru skemmtilegu og skondnu þema.
Sigurlaug B. Gröndal, 30.11.2007 kl. 16:49
Ég er fegin að þetta rugl viðgengst ekki í Austurbæjarskóla :o
Hildigunnur Rúnarsdóttir, 3.12.2007 kl. 12:06
Úff, mér finnst svo hræðilegt að þetta skuli vera að ryðja sér til rúms hérna. Hvað gengur að skólastjórnendum sem leyfa þennan fjára innan vébanda skólanna? Ég kæri mig ekkert um að stelpurnar mínar fái þau bjánalegu skilaboð að þær verði að vera sætar og penar til að fá nú boð á ball frá einhverjum skólafélaganum!
Árið 1975, þegar ég var niðri í bæ á Kvennafrídeginum, trúði ég því í alvöru að málin yrðu komin í fínt lag þegar ég yrði fullorðin. Ég sætti mig ekki við að sama dellan vaði enn uppi, hvað þá að hún verði allsráðandi þegar stelpurnar mínar vaxa úr grasi.
Ragnhildur Sverrisdóttir, 5.12.2007 kl. 14:25
Sama segi ég Ragnhildur. Ég var svo viss á þessum stórkostlega degi 24. október 1975 að málið væri í höfn og nú værum við á beinu brautinni.
Þess vegna finnst mér svona böll þvílík tímaskekkja að ég get ekki orða bundist. Og í mínu tilfelli þá hafa dætur mínar fengið þær skilaboð að þær geti það sem þær vilji og þær hafi alla þræði í hendi sér og séu sjálfstæðar og flottar. Nei nei - nú þarf að bíða eftir að vera boðið á ball. Og það sem verst er - þeim finnst það eiginlega bara sjálfsagt! Og að þær geti sko ekki boðið strákum.
Og hvað með krakka sem eru að uppgötva að þeir eru samkynhneigðir - hvernig heldur þú að þeirra líðan sé? Þarna er algjörlega verið að stimpla það að það sé aðeins normalt að strákur og stelpa fari saman.
Þetta tíðkast því miður í fleiri skólum.
Ég hef reyndar fengið fínar undirtektir og vona og trúi að svona flott og fínt ball verði að ári en þá með öðrum formerkjum.
Kristín Björg Þorsteinsdóttir, 6.12.2007 kl. 10:22
Ég er svo sammála, svona ball er víst í Hagaskóla og ég fæ hroll þegar ég hugsa um að dóttir mín þurfi að fara í gegnum þessa vitleysu á næsta ári. Góð hugmynd að skrifa skólastjórnendum, held ég geri það bara strax til að reyna að koma í veg fyrir að þetta haldi áfram.
Hulda Hjartardóttir, 13.12.2007 kl. 13:42
Sæl vertu Hulda - mikið er gaman að heyra frá þér!
Já - þetta er mikil vitleysa og ég hvet þig til að gera athugasemd sem fyrst. Sú yngir hjá mér byrjar á unglingastigi næsta ár eins og ég vona svo sannarlega að búið verði að breyta fyrirkomulaginu.
Er það helst af ykkar þrem yngstu sem er að byrja í Hagaskóla?
Kristín Björg Þorsteinsdóttir, 13.12.2007 kl. 15:11
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.