Fallegt ljóð

Ég var að lesa minningargrein um ungan mann í Morgunblaðinu. Þar var þetta fallega ljóð eftir föðurbróður minn:

Við spyrjum drottin særð, hvers vegna hann

hafi það dularfulla verklag

að kalla svo vænan vinnumann

af velli heim á bæ um miðjan dag.

 

Og þó, með trega og sorg, skal á það sæst,

að sá með rétti snemma hvílast megi

í friði, er hafði, fyrr en sól reis hæst,

fundið svo til, að nægði löngum degi

(Jóhann Hannesson)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Kristín Björg.

Ég las ljóð föðurbróður þíns í minningargreininni í Mbl. eins og þú.  Í morgun var ljóðið enn í huga mínum,  en ég taldi það mér glatað;  búinn að henda blaðinu og áskrifendur Mbl. hafa aðeins aðgang að því á netinu í 7 daga.  Með því að slá inn hendingar sem ég þó mundi fann ég svo síðuna þína,  og náði gleði minni.

Ég hélt,  þegar ég las ljóðið í blaðinu,  að höfundurinn væri sr. Jóhann S. Hannesson (+),  en sýnist nú að það sé líklega ekki rétt hjá mér?  Þess vegna langar mig að biðja þig að hjálpa mér um frekari upplýsingar:  Átta mig á hver höfundurinn er (erfðagreina hann!);  hvar önnur ljóð hans er að finna og hvaða nafn hann gaf þessu umrædda, frábæra verki sínu. 

Kveðja  -  Valur.

Valur Þorvaldsson Minna-Mosfelli (IP-tala skráð) 16.10.2007 kl. 07:49

2 Smámynd: Kristín Björg Þorsteinsdóttir

Sæll vertu Valur - já þetta ljóð er alveg einstakt og er hér upp á vegg hjá mér á skrifstofunni minni og ég er ekki hissa að þú skulir hafa hrifist af því.

Það eru margir sem hafa ruglað þeim saman sr. Jóhanni og Jóhanni föðurbróðir mínum. Báðir voru þeir með hökutopp og báðir kvæntir amerískum konum.

Jóhann Sigurjónsson Hannesson frændi minn fæddist á Siglufirði 1919 og lést í Reykjavík 1983. Hann var sonur hjónanna Hannesar Jónassonar - bóksala og skálds á Siglufirði - og Kristínar Bjargar Þorsteinsdóttur. Kristín amma mín og Jóhann Sigurjónsson skáld voru systkina börn og Jóhann kom í heimsókn til ömmu þegar hún bar Jóhann undir belti og var það í síðasta skipti sem þau sáust því Jóhann lést skömmu síðar. Frændi er því skírður í höfuðið á honum.

Jóhann lauk stúdentsprófi frá MA og sigldi síðan vestur um haf og nam við Berkley háskóla í Ameríku. Þar kynntist hann konu sinni Lucy Winston Hill (Winston Hannesson). Þau eignuðust tvö börn - Wincie fædd 1942 og Sigurður fæddur 1950.

Þau fluttu til Ithaca í New York fylki þar sem Jóhann var forstöðumaður fyrir Fiske bókasafnið sem er stærsta íslenska bókasafnið utan Íslands ef safnið í Kaupmannahöfn er undanskilið.

Þegar þau hjón fluttu heim gerðist Jóhann skólameistari við Menntaskólann á Laugarvatni og Winston kenndi þar ensku Síðan fór hann á skólamálaskrifstofu Reykjavíkurborgar og var síðan lengi vel kennari við MH. Winston kenndi þar einnig. Þegar Jóhann dó vann hann við Ensk - Íslenska orðabók á vegum Arnar og Örlygs.

Jóhann var alveg sérlega yndislegur maður og stórkostlegt að eiga slíkan frænda. Hann átti mikið og gott bókasafn og þegar ég var krakki og unglingur þá gat maður talað við Jóhann um allt milli himins og jarðar. Enda hafði hann sérlega gaman af að umgangast ungt fólk.

Hann gaf út all margar ljóðabækur og var líka mjög góður limruhöfundur. Ég fletti honum upp í gegni.is en fann engar bækur eftir hann.

Ekki hika við að hafa samband ef þú vilt fá frekari upplýsingar - ég er með netfang kristinbjorg@us.is

bestu kveðjur

Kristín Björg

Kristín Björg Þorsteinsdóttir, 16.10.2007 kl. 08:17

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband