Munaðarnes

Sælu vika í Munaðarnesi á enda og við komin heim til kisu.

Þær raddir heyrast að orlofshús starfsmannafélaga/stéttarfélaga séu tímaskekkjur og heldur eigi að greiða fólki ákveðna upphæð og svo ráði það því sjálft hvert haldið er. Ekki hef ég skoðun á því.

Hitt veit ég að þegar þessi hús voru fyrst tekin í notkun í Munaðarnesi þá var þetta himnaríki fyrir ríkisstarfsmenn en foreldrar mínir störfuðu bæði fyrir ríkið. Ég kom þarna fyrst sem unglingur snemma á 8. áratugnum og gleymi ekki þvílík tilbreyting þetta var. Ég hafði aldrei sofið í sumarbústað áður því slík hús áttu ekki nema fáir útvaldir. Þarna kom maður í vel búin hús og fékk sængurföt og viskustykki afhent. Hægt var að kaupa heitan mat svo ekki þyrfti að standa í matargerð í fríinu. Allt umhverfið var einstaklega snyrtilegt og þarna undi maður maður sér við bóklestur, gönguferðir og spil.

Á þessum tíma fór venjulegt launafólk varla til útlanda í fríium - hvað þá með börnin með sér. Og fyrir pabba minn og mömmu sem ekki höfðu úr of miklu að spila var þetta ótrúlega gott frí.

Við vorum nú eins og í fyrra í eina húsinu sem Starfsmannafélag RÚV á eftir. Þegar mest var áttu útvarps og sjónvarpsstarfsmenn fjögur hús í Munaðarnesi og eitt á Eiðum. Nú hafa þessi hús öll verið seld utan hús númer 17. Það er alveg sérlega vel hugsað um þetta hús og þarna er allt ósköp hlýlegt og notalegt.  Nú er búið að skipta út gamla þunglammalega BSRB matar stellinu fyrir létt blómastell - en svei mér þá ef það er ekki dálítill söknuður af stórastellinu!

Þarna eru margar góðar bækur - sérstaklega uppflettibækur og fræðirit. Í gamla daga þá lagðist ég alltaf í Snjólaugu Braga þegar farið var í Munaðarnes.

Annars undum við okkur fjölskyldan við að vera saman, sofa, glápa á DVD, borða og spjalla.

En það besta við að fara að heiman er að koma aftur heim...


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband